Um svæðið
Í nágrenni Þórshafnar er ýmislegt hægt að skoða og upplifa. Nokkrar skemmtilegar gönguleiðir (merktar) eru í nágrenninu, bæði á Langanesi og í Þistilfirði.
Langanes teygist næstum 40 km út í hafið til norðausturs. Á nesinu skiptast á mýrar, holt og melar. Allgrösugt er þar víða og sauðlönd góð. Við Langanes hafa verið gjöful fiskimið frá fornu fari og fiskveiðar stundaðar af krafti. Þar er fjölbreytt fuglalíf. Mikil hlunnindi hafa þar löngum verið af reka, æðarvarpi og bjargfuglatekju. Sjaldgæfar jurtir vaxa á Langanesi svo sem flétta sem kallast klettakróða. Undir Skoruvíkurbjargi er klettadrangur sem heitir Stórikarl. Þar er mesta súluvarp á Norðurlandi og einnig verpa þar margar aðrar fuglategundir t.d. langvía, ryta og fýll.
Sauðaneshús ættu allir að heimsækja, þar er gamli tíminn alls ráðandi og margt fróðlegt að skoða. Ótal gamlir munir og myndir frá svæðinu. Húsið er eingöngu opið yfir sumartímann og þar er boðið upp á léttar veitingar.
Nánari upplýsingar um Sauðaneshúsið er að finna t.d. á Facebook (slá inn Sauðaneshús í leit)
Heimasíða fyrir húsið er í vinnslu.
Rauðanes í Þistilfirði er falleg og sérstæð náttúruperla. Um nesið er merkt gönguleið sem er um 7 km, liggur í hring og er auðfarin. Á nesinu er lyngmór allsráðandi en einnig er þar nokkurt graslendi.
Í byrjun gönguleiðarinnar er gengið fram á Háabjarg sem er um 60 metra hátt og í því sést hvernig berglögin hafa hlaðist hvert ofan á annað í aldanna rás. Útsýni af nesinu er mjög víðfeðmt.
Á www.lnb.is og www.nordurland.is er að finna nánari upplýsingar um svæðið, samgöngur og þjónustu.